fbpx

Saga Kjöthallarinnar

Starfrækt frá árinu 1944

Kjöthöllin er með elstu verslunar og kjötvinnslufyrirtækjum landsins, stofnað 1. maí 1944. Fyrstu árin var verslunin og kjötvinnslan rekin á Klömbrum á Klambratúni (Miklatúni).

Þar var einnig rekið sláturhús til nokkurra ára ásamt reykhúsi , en það var starfrækt til ársins 1963. Kjötvinnslan fluttist að Háteigsvegi 2 árið 1953 og var þar til húsa næstu 13 árin. Kjöthöllin réðst í byggingu verslunarhússins að Skipholti 70 árið 1964 og fluttist kjötvinnslan þangað 1966 samhliða því að verslunin var opnuð.

Árið 1982 var matvöruverslunin að Háleitisbraut 58-60 til sölu ásamt húsnæði á 1. og 2. hæð. Kjöthöllin réðst í kaup á þessum eignum og hefur rekið þar verslun síðan 1.júní 1982.

Hin síðari ár hefur aðaláhersla kjötvinnslunnar verið lögð í vinnslu á nautakjöti; steikum, hakki og hamborgurum. Svínakjötsútskurður er einnig mikill, ásamt vinnslu lambakjöts.

Þó að gömlum vinnsluaðferðum sé haldið í heiðri hefur vöruþróun einnig orðið mikil hin síðari ár. Þróunin hefur orðið sú að gera vöruna meira tilbúna til matargerðar fyrir neytendur, ýmsar gerðir af steikum útbúnar eftir sérpöntunum, kjötið kryddað eftir óskum og úrval af magnpakkningum fyrir hagsýnar fjölskyldur. Erlend matargerðarlist hefur aukið fjölbreytni vöruúrvalsins mikið, því hin mikla fjölbreytni matsölustaða kallar oft á ný vinnubrögð.

Fyrirtækið hefur ætíð haft duglega kjötiðnaðarmeistara við störf sem unnið hafa til ýmissa viðurkenninga. Í dag þjónar kjötvinnslan aðallega veitingahúsum og mötuneytum auk verslananna.

Öflugt innra eftirlit er innan fyrirtækisins bæði á það við um gæði vörunnar og hvað hreinlæti varðar. Verslanir hafa alla tíð verið starfræktar samhliða kjötvinnslunni og eru nú í Skipholti 70 og Háaleitisbraut 58-60. Nú starfa um 25 manns hjá Kjöthöllinni og þar af 7 kjötiðnaðarfagmenn.

Stofnandi Kjöthallarinnar var Christian H. Christensen og rak hann fyrirtækið fyrstu 30 árin . Synir hans Sveinn og Björn Christensen ásamt þeirra fjölskyldum keyptu síðan reksturinn 1974 og hafa þeir starfrækt fyrirtækið síðan.