fbpx

SVÍNALÆRI MEÐ PURU

Steikingartíminn á svínslærinu fer auðvitað mest eftir stærðinni en þó eru fleiri þættir sem skipt geta máli, m.a. hvort kjötið er ískalt þegar það fer í ofninn. Langbest er að nota kjöthitamæli og stinga honum í lærið þar sem það er sverast en gæta þess að oddurinn snerti ekki bein. Munið að láta saga hækilinn af lærinu ef það er stórt, annars er hætt við að það komist ekki í ofn af venjulegri stærð.

1 vænt svínslæri, 10-14 kg
Nýmalaður pipar
Gróft salt

Best er að taka kjötið úr kæli nokkrum klukkustundum áður en það er steikt.
Þerrið pöruna vel ef hún er rök. Ristið skurði í hana með 1/2-1 sm millibili og gætið þess að hafa þá hæfilega djúpa; þeir eiga að ná vel niður í fitulagið en ekki ofan í kjötið. Best er að nota dúkahníf til verksins.
Núið pipar og grófu salti vel ofan í pöruna og gætið þess sérstaklega vel að salta ofan í hvern skurð um sig.
Leggið lærið á grind sem höfð er yfir ofnskúffu og látið það standa án yfirbreiðslu þar til það fer í ofninn.
Hitið ofninn í 230°C. Setjið lærið inn og steikið það í 25-30 mínútur, eða þar til puran er farin að taka góðan lit. Lækkið þá hitann í 170°C og steikið lærið áfram í 35-40 mínútur á hvert kíló, eða þar til kjöthitamælir sýnir 70°C. Hellið dálitlu heitu vatni í ofnskúffuna þegar steikingartíminn er u.þ.b. hálfnaður og bætið við það eftir þörfum. Takið lærið svo út þegar það er steikt, breiðið álpappír lauslega yfir og látið það standa á hlýjum stað í a.m.k. hálftíma og gjarna lengur.
Minni læri og svínabóga má steikja á sama hátt en þá er steikingartíminn auðvitað mun styttri.

Verði ykkur að góðu!